Starfsreglur

1. gr.
Almennt

Rannsóknastofnun í barna- og fjölskylduvernd (RBF) er rannsókna- og fræðslustofnun sem er starfrækt í félagsráðgjafardeild. Að rannsóknastofnuninni standa fastir kennarar í félagsráðgjafardeild og samstarfsaðilar af vettvangi. Stofnunin heyrir undir Félagsvísindastofnun samkvæmt. 27. reglna nr. 569/2009 um Háskóla Íslands, sbr. Einnig reglur um Félagsvísindastofnun 6. apríl 2009. Rannsóknastofnuninni er ætlað að vera víðtækur vettvangur rannsókna á sviði félagsráðgjafar, einkum öllu því er lýtur að stefnumörkun, þróun og þjónustu í barna- og fjölskylduvernd. Markmiðstofnunarinnar  er jafnframt að miðla vísindalegri þekkingu um félagsráðgjöf og laða fræðimenn til starfa á þessu sviði.

2. gr.
Hlutverk

Hlutverk RBF er að auka og efla rannsóknir í félagsráðgjöf á sviði barna- og fjölskylduverndar, meðal annars með því að:

a) eiga frumkvæði að og sinna rannsóknum á sviði félagsráðgjafar.

b) sinna rannsóknartengdum þjónustuverkefnum á sviði félagsráðgjafar.

c) efla tengsl rannsókna og kennslu og samhæfa rannsóknir á sviði barna- og fjölskylduverndar.

d) hafa samstarf við innlendar og erlendar rannsóknastofnanir og fræðimenn í félagsráðgjöf og efla tengsl við atvinnu- og þjóðlíf.

e) veita nemum í rannsóknanámi aðstöðu og búnað til rannsóknastarfa og veita nemum þjálfun og reynslu í vísindalegum vinnubrögðum með því að gefa þeim kost á að vinna rannsóknastörf á vegum stofnunarinnar eftir því sem unnt er.

f) kynna niðurstöður rannsókna, m.a. með útgáfu fræðigreina, gangast fyrir faglegum námskeiðum, fyrirlestrum og ráðstefnum á sviði félagsráðgjafar.

3. gr.
Aðstaða

Félagsvísindastofnun mun láta RBF í té starfsaðstöðu, svo sem húsnæði og búnað eftir því sem kostur er.

4. gr.
Stjórn

Stjórn RBF er skipuð sjö einstaklingum til tveggja ára í senn. Félagsráðgjafardeild tilnefnir tvo kennara í stjórn og skal annar þeirra vera formaður.  Velferðarráðuneyti skipar tvo fulltrúa og einn er tilnefndur af öðrum samstarfsaðilum. Félagsráðgjafarfélag Íslands tilnefnir einn fulltrúa í stjórn og forseti félagsvísindasviðs

tilnefnir einn fulltrúa Háskóla Íslands, utan félagsráðgjafardeildar.
Þriggja manna framkvæmdanefnd hefur umsjón með daglegum rekstri í umboði stjórnar. Í henni er formaður stjórnar RBF, kennari í félagsráðgjafardeild og (ráðinn) framkvæmdastjóri.

5. gr.
Stjórnarfundir

Stjórnarfundir skulu haldnir einu sinni á ári, en oftar ef stjórnarmaður óskar þess. Að auki skal aðalfundur haldinn í september, að jafnaði þriðja föstudag þess mánaðar. Forstöðumaður boðar stjórnarfundi bréflega eða í tölvupósti með þriggja vikna fyrirvara.  Í fundarboði skal greina frá dagskrá fundar. Halda skal gerðarbók stjórnar og skulu staðfestar fundargerðir færðar í hana. Aðild að aðalfundum eiga, auk stjórnar, allir samningsbundnir samstarfsaðilar, fjárstyrktaraðilar, kennarar í félagsráðgjafardeild og aðrir velunnarar rannsóknastofnunarinnar.

6. gr.
Verkefni stjórnar

Stjórnin tekur stefnumarkandi ákvarðanir fyrir stofnunina. Stjórnin sker úr í vafaatriðum sem upp kunna að koma og varða innri starfsemi setursins. Stjórnin ber ábyrgð á fjármálum stofnunarinnar gagnvart Félagsvísindastofnun og forseta félagsvísindasviðs. Stjórninni er heimilt að ráða framkvæmdastjóra eða aðra starfsmenn, eftir því sem ástæður og efni gefa til. Stjórn getur skipað fagráð sér til ráðuneytis samkvæmt nánari vinnureglum.

7. gr.
Verkefni framkvæmdanefndar

Framkvæmdanefnd heldur mánaðarlega fundi og sér um starfsemi stofnunarinnar í samræmi við stefnumörkun stjórnar. Hlutverk hennar er að framfylgja  stefnumörkun og ákvörðunum um RBF og vera framkvæmdastjóra til styrktar.  Framkvæmdastjóri starfar samkvæmt starfslýsingu. Hann undirbýr stjórnarfundi og vinnur að fjáröflun stofnunarinnar. Hann fylgir eftir verkefna- og rannsóknatengdum störfum stofnunarinnar í nánu samstarfi við framkvæmdanefnd.

8. gr.
Fjármál

RBF hefur sjálfstætt fjárhald en reikningshald stofnunarinnar skal vera hluti af reikningshaldi félagsvísindasviðs Háskóla Íslands. Fjárhagsáætlanir og uppgjör skulu kynnt forseta félagsvísindasviðs, deildarforseta Félagsráðgjafardeildar, forstöðumanni Félagsvísindastofnunar og fjárstyrktar- og samstarfsaðilum sbr. 5. gr.

9. gr.
Rannsókna- og þróunarsjóður RBF

Á vegum RBF er starfræktur Rannsóknar- og þróunarsjóður RBF. Sigrún Júlíusdóttir, prófessor við félagsráðgjafardeild og stjórnarformaður RBF stofnaði sjóðinn þann 12. maí 2011 og lagði jafnframt fram stofnframlag. Markmið og skipan sjóðsins eru tilgreind í stofnskrá. Árlegt framlag RBF skal vera 3% af  tekjum vegna þjónustuverkefna nýliðins árs og skal greiðast í sjóðinn  eigi síðar en 1. febrúar ár hvert að því gefnu að ekki sé um rekstrarhalla á stofnuninni að ræða.

Samþykkt á stjórnarfundi Félagsvísindastofnunar félagsvísindadeildar Háskóla Íslands þann 25.júní 2005.  Breytingar voru gerðar á aðalfundi RBF 15. september 2006. Breytingar voru gerðar á aðalfundi RBF 19. september 2008. Breytingar voru gerðar á aðalfundi RBF 25. september 2009. Breytingar voru gerðar á aðalfundi RBF 18. október 2012.

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is